Nafnlausi pistlahöfundurinn

0
1882

Fyrstu skrefin inn í gamlan dans

Þú ert í matvörubúð að versla inn fyrir barnaafmæli.

Afmælisbarnið tekur eins og eitt hressilegt kast á gólfinu í búðinni og þú finnur hvað þráðurinn er stuttur. Þig langar að henda þér á gólfið með því og öskra all hressilega í takt við grátur tilvonandi afmælisbarns.

En afhverju ertu ekki jafn kúl á því og þú ert vanalega? Hvað er að kveikja upp í þessum tilfinningum sem þú ræður ekkert við?

Jú. Framundan er afmælisveisla.

Fyrsta afmælisveislan.

Við skilnað tekur sorgarferli taumana og leiðir þig áfram einhverja óskiljanlega hlykkjótta leið. Sorgarferli sem við þekkjum öll af eigin raun eða höfum heyrt og lesið um.

Við syrgjum og gátum, öskrum innra með okkur og upphátt og lífið fer á hvolf. Svo, þegar þú tekur ekki eftir því, réttir lífið sig af. Hægt og rólega rennur ekki allt úr greipum þér heldur hefur þú undarlega gott tak á hlutunum.

Hvort sem það er sultukrukka eða sódavatn. Lífið lullar hægt og rólega af stað og sársaukinn verður einhverskonar minning.

Allt sem fólkið þitt tönglaðist á rætist. “Þú kemst í gegnum þetta”.

Það skrítna er að það rættist!

Allt í einu ertu hlæjandi og áttar þig á því að þú hefur ekki hlegið lengi. Allt í einu kemur þögn sem er ekki þvinguð í burtu með tónlist eða samtali. Hún bara er og hún er kærkomin. Þessar bölvuðu raddir í kollinum þögnuðu loksins.

Þú andar inn og finnurðu loftið fara niður í tær. Akkúrat þarna er erfiðasti hjallinn að baki.

Augun opnast og þau pírast í átt að nýju lífi. Umhverfið verður í lit og fólkið með.

Mögulega kíkir þú I kringum þig og hrynur um hamingjuna. Allt of snemma eða á hárréttum tíma.

Hver veit?

En hvað þá?

Allt í einu, þegar þú ert í takt við einhverja nýfundna hamingju bankar draugurinn upp á. Hann er í formi fyrstu skrefanna.

Hvort sem það er fyrsti snjórinn, fyrsti bjórinn, fyrstu jólin eða fyrsta afmælið. Fyrstu skrefin í gegnum gamlar hefðir eru fjandi þung og banka upp á þegar þú varst alls ekki búin/n að hita upp.

Eins og í afmælisfrekjukasti í miðri matvörubúð. Þau eiga það til að skyggja á gleðina sem fylgir stund og stað.

Þetta er svolítið eins og að fljúga í flugvél en það er enginn flugmaður. Þú keyptir miðann en manst ekki hvert þú ætlaðir.

Afmæli afmælisbarnsins rennur upp. Þetta er gleði og hamingja en einhver gamalkunnur sársauki nýstir þarna innra með þér.

Sami gamli stingurinn. Fjandinn af honum.

Minningarnar tengdar deginum eru allt í einu ljúfsárar.

Minningar um brostna drauma og framtíð sem rættist ekki. Skýjaborg sem hrundi yfir þig, sama hvað þú reyndir. Nú er staðan þannig að pabbi er í pabbahúsi og mamma er í mömmuhúsi.

Afmælið byrjar.

Sparibrosið er nælt upp, hláturinn dreginn fram og afmælisdagurinn einkennist af uppvaski, kaffiuppáhellingum og allt of mikið af kökum.

Allt til að stoppa tilfinningarnar sem eru að taka maraþon í átt að útgöngu. Fyrrum maki kom og fyrrum maki fór.

Það eitt og sér er allt í lagi, en með þeim fóru minningarnar inn í hugann en fóru ekki jafn snöggt.

Kvöldið kemur og tárin mögulega með.

Hamingjusamt afmælisbarn er lagst til hvílu á meðan hrærigrautur tilfinninga flækist í pakkaskrauti og afmælisblöðrum.

Þú veist vel að þetta mun líða hjá, alveg eins og allt annað. Allt kapp er lagt á að þurrka bölvuð tárin sem fossa niður án gráturs, farið er að taka varlega til í sál sem og á gólfi afmælisveislunnar og einfaldlega halda áfram.

Þetta eru jú bara fyrstu skrefin inn í gamlar hefðir.

Fullt af fyrstu skrefum eru eftir.

Fleiri afmæli, fyrsta sumarfríið, fyrsti skóladagurinn og fyrsta ástarsorg barnanna.

Þar veistu að þú kemur að gagni.

Þú þekkir tilfinningarnar.

Þú hefur lifað þær af þó svo um tíma hafir þú mögulega efast um að líkaminn kæmist í gegnum þetta.

En veistu hvað?

Þú munt ekki muna þann tárafjölda sem fauk niður kinnarnar, né fjölda andvökunátta og sorgarsöngva sem voru spilaðir. Þú komst í gegnum þetta og kemst í gegnum þetta líka.

Allt þetta er sönnun á það að þetta líður hjá.

Ég lofa.

Það er nefnilega gott að elska.

Nafnlausi pistlahöfundurinn.

Previous articleSelena
Next articleGlókollurinn hans Drake
Eiginkona, mamma, Hollywood Expert (heimatilbúinn titill) skemmtikraftur, blómskreytir, bloggari & áhrifavaldur. Mun láta gamminn geisa um allt milli himins og jarðar hér inni....og mun einbeita mér að lífi fræga fólksins sem staðsett er um allan heim!! Hollywood here we come!